laugardagur, október 04, 2008

Solla stirða


Nú hefur nýtt æði heltekið afastelpuna, en það er Latabæjargengið. Sérstaklega hún Solla stirða. Nú fær maður að heyra smá hrós á hverjum degi t.d afi þú ert sætur, þú ert svoooo góður, ég elska þig afi, svo eftir smástund heyrist lítil mjóróma barnsrödd segja, afi eigum við að kaupa Solludót. Þá er maður náttúrlega orðinn einsog smjör sem hefur staðið í stofuhita yfir nótt. Á kvöldin þegar hún er sofnuð þá stendur maður fyrir framan spegilinn og reynir að rýna í andlitsdrættina og forna fegurð. En þetta gengur ekki upp, baugar og hrukkur það er málið hjá manni núna, maður er einsog bylgjupappi í framan. Svo lofar maður sjálfum sér að láta hana ekki hafa áhrif á sig aftur, en það er fokið út í veður og vind við næsta komplíment. En að öðru, það virðist sem vetur konungur sé genginn í garð að minnsta kosti í bili og eru þetta mikil umskifti frá síðasta fríi þegar sól og hiti réðu ríkjum. Núna situr sú stutta og horfir á Lazytown en ég ætla að panta mér tíma í botox.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bwahahahahahahaha...... PABBI AÐ PANTA SÉR TÍMA Í BOTOX!!!!Oh þú ert nú meira smjörið afi gamli. Ætli ég geti notað þetta á þig líka? Hmm verð að prófa næst þegar við hittumst. En ég skil þig samt alveg það er voða erfitt að segja nei við hana. Hún er svo mikið yndi þessi stelpa. En vona að þið farið nú að drattast í borgina aftur. Sjáumst. Elska ykkur...knús á línuna. Ykkar uppáhalds elsta dóttir Þóra. P.S pabbi þú ert svooo SÆTUR....þú ert svooo GÓÐUR.....

Nafnlaus sagði...

úff..hvernig verður hún þegar hún kemur heim til mömmu sinnar, eftir að hafa verið í dekri ala afi Ottó? Þú verður nú að herða þig gamli áður en hún gerir þig gjaldþrota..Sollu dót er nú ekki beint ódýrt sko hehe. En ég segi eins & systa..maður ætti að láta á það reyna hvort við getum ekki notað þessa tækni á þig líka þegar manni vantar eitthvað hmm.. Hafið það annars bara gott & það má alveg segja nei við afastelpuna hehe. Love love