sunnudagur, júní 07, 2009

Sjómannadagurinn


Brugðum undir okkur bíldekkjunum og renndum út í Ólafsfjörð kl 09.30 í morgun. Byrjuðum á að fara í sjómannamessu þar sem pabbi og annar gamall sjóari voru heiðraðir. Tók ég við viðurkenningunni fyrir pabba hönd þar sem hann er ekki heima. Svaka hlunkur þessi orða.


Síðan tóku við allskonar skemmtiatriði fyrir sunnan Tjarnarborg, þar komu fram Friðrik Ómar, Gunni og Felix, hljómsveit frá Sigló sem skipuð var eldri mönnum, Lilli klifurmús og ýmislegt annað, skemmtu allir sér dúndurvel. Ekki skemmdi veðrið fyrir, glaðasólskin. Manni skilst að þessi hátíð sé að hverfa af sjónarsviðinu á mörgum stöðum, og er það miður.


En Ólafsfirðingar láta ekki deigan síga í þessum efnum. Í kvöld mun Páll Óskar trylla misfulla og síkáta sjómenn í Tjarnarborg og ekki að efa að menn skemmti sér vel. Á morgun verður haldið til hafs á ný og sjálfsagt verður lágt risið á einhverjum.

Engin ummæli: